Tuesday, May 3, 2011

L'aria di primavera: Pasqua

       

          Var ég búin að segja ykkur frá hitabylgjunni? Byrjun apríl var sú heitasta sem hefur mælst hér frá upphafi og er kjarnorkuslysinu í Japan kennt um. Hitinn var um 30° flesta dagana með glampandi sólskini og ekki skugga að finna, hitinn fór svo hæst upp í 36° einn föstudaginn og ekki lítið annað gert í þessum hita en að borða ís og liggja í sólbaði. Oftar en ekki var haldið að sjónum, með vinum eða fjölskyldu, og í eftirminnilegri ferð á hvössum en heitum degi í 20 km göngu meðfram strönd Adríahafsins með Davide(fósturpabba) og Giacomo(litla bróður) lentum við í miklum ævintýrum; hittum sígauna, björguðum fiski sem að var strandaður á árósunum, sjáum skjaldbökur og kite-sörfara og enduðum svo daginn á því að fá okkur piadinu( http://en.wikipedia.org/wiki/Piadina) hjá héraðsmeisturum í Romagna í piadinu-gerð. Það er nefnilega ekki hægt að lifa án piadinunar, og það er engin lygi.


          Lífið hélt áfram að leika við mig, því að þennan heitasta föstudag ákvöðu Forlí-búar loksins að verða við kröfum mínum og opnuðu nýjar verslunarmiðstöð með H&M, nú kem ég ekki heim, allavega ekki ef þeir bæta við Zöru eins og stendur til!
Öll fjárframlög eru vel þegin.


          Árlegur kvöldverður AFS hópsins í Cesena var haldinn með sannkölluðu prompi og prakt, forseti AFS á Ítalíu mætti og auðvitað var ég fengin til að fara með hann og fylgisveina hans í skoðunarferð um Cesena. Frábær hugmynd, látum eina skiptinemann á svæðinu sem býr ekki í borginni fara með gestina í skoðunarferð.
Það gekk nú allt vel og kvöldverðurinn sjálfur æðislegur, alltaf jafn gaman að kynnast nýjum krökkum. Í þessu tilfelli krökkum af svæðinu sem eru að fara út sem skiptinemar næsta haust, það er mjög skrítið að vera komin í þá stöðu að vera sú sem gefur ráð og svarar spurningum eftir næstum því ár að því að spyrja spurninga! Ég verð þó að segja að ég er komin með allmikla leið á því að standa fyrir framan fjölda fólks og kynna mig á ítölsku, bara svona til að sýna að ég geti það.. eftir tíuþúsundasta skiptið verður það svoldið þreytt!

          Þann 13.apríl, á sjálfan afmælisdaginn, voru veðurguðirnir svo yndislegir að draga ský fyrir sólu og koma með smá ekta Borgarnesrok til mín. Dagurinn var yndislegur engu að síður og honum eytt á torginu í góðra vina hópi, með ís í annari.. og ís í hinni. Um kvöldið var svo stórfjölskyldunni boðið í mat þar sem að pasta með laxi, grillaður norskur lax(hey næstum því íslenskur!) og risa súkkulaðikaka og jarðaber voru á boðstólnum. Þann fjórtánda var svo haldið með bekkjarfélögum á japanskan veitingastað í tilefni afmælisins, og til að klára nú dæmið var haldið á ekta amerískan hamborgastað(hefði getað verið klipptur út úr Grease) á laugardagskvöldi með Francisco, William, Klaudiu og Nicoló og svo var dansað fram á rauða nótt.       


         Annað en nýlegt sjálfræði, fullræði og alræði er ekki mikið að frétta af mér. Ég á í miklum erfiðleikum með að tala íslensku núna, þótt að það gangi nú aðeins betur að skrifa. Kröfurnar eru orðnar mun meira í skólanum. Nú geri ég allt sem hinir krakkarnir gera og farin að standa mig betur en þau í sumu, enda þykir 6 afbragðseinkunn hér.. var tildæmis hæst í sálfræðiprófi um daginn, sem að mér fannst nokkuð gott! Ég eyði kannski fullmiklum tíma í sólbaði og window-shopping, nú eða bara yfirhöfuð í H&M þar sem ég fór, hlýðna dóttirin sem ég er, og eyddi samviskulega afmælispeningunum mínum enda fáránlega ódýrt að versla í H&M í þessu landi, og ekki nógu miklum í að leita uppi ævintýri en í þessum hiti er bara rosalega erfitt að rífa sig upp úr letinni. En lífið er gott, ég vona bara að það verði ekki mikið heitara því þá bráðna ég hraðar en snjókarl í ljósabekk. Ástandinu hér má einmitt líkja við að vera í ljósabekk sem er gufubað á sama tíma, og það er ekkert grín.           Páskarnir hér eru mjög öðruvísi. Ég er ekki trúuð, en ég slæ ekki hendinni á móti fríi, góðum mat, djammi og súkkulaði. Uppistaða páskanna á Íslandi, ekki satt? Hér á Ítalíu eru páskarnir aftur á móti mikil trúarhátíð og mér oftar en ekki brugðið við að sjá trúarhitann í fólkinu hér; grátandi inn í troðfullum kirkjunum biðjandi á hnjánum, börn, gamalmenni og veikt fólk. Þau taka ekki dauða Krists alveg jafn létt og við hin.
          Á léttari nótum, hef ég notað langþráð fríið nokkuð vel. Ég er búin að borða alltof mikið að góðum mat og bara hafa gaman yfirhöfuð. Skellti mér til Riccone með Federicu vinkonu minni, þar sem við hittum alls óvænt skiptinema sem var það með fjölskyldunni sinni yfir páskanna og drógum hann með okkur í smá verslunarferð en hún Federica er ansi skæð í fatakaupum. Greyið strákurinn. Sýndi hinum skiptinemunum nýju verslunarmiðstöðina og fann KRAP í ísbúðinni þar, það var samt ekki jafn gott og heima og ekkert hlaup til að láta út í!
          Páskadagur rann upp skýjaður, kaldur og hótaði rigningu, ég held að veðurguðirnir séu að reyna að koma í veg fyrir heimþrá hjá mér með því að senda mér alltaf sérlega ekta íslenzkt (svo íslenskt það það þarf að nota zetuna) veður. Það var ræs kl. 7 til að borða morgunmat saman, blessuð soðin egg sem að við höfðum farið með í miðnæturmessuna kvöldið áður til að láta prestinn blessa þau. Ég hefði nú bara sleppt því enda tók messan 4 og hálfa klst og var hundleiðileg, og ekki urðu eggin neitt betri á bragðið! Skurðinum utan af var svo safnað saman, því ekki má henda heilugum skurninum í ruslið. Neinei, það verður að brenna hann alveg sérstaklega. Ég fékk 3 páskaegg, en skortur á málsháttum, páskaungum og nammi gerðu eggin mun meira óspennandi.
          Í hádeginu gerðist samt leiðilegur hlutur. Gullfiskur litla bróður míns, hann Fiskur, fannst látinn rétt áður en við byrjuðum að borða. Litli bróðir tók það mjög nærri sér, en ekki jafn nærri sér og amman, sem á nú í smá vandræðum með minnið, svo að þetta var mjög sorglegt fyrir hana fjórum sinnum áður en að upplýsingarnar festust almennilega.

          Annan í Páskum fór ég svo til bæjarins Assisi, sem er í Umbríu með fjölskyldunni. Assisi er heimsfræg fyrir að vera borg friðar, en þar var fæddur heilagur Francesco(heilagur Frans frá Assisi) sem var munkur og predikari sem stofnaði meðan annars reglu heilags Frans með leyfi Innósentíusar 3. páfa árið 1209. Munkar af þessari reglu voru nefndir „smábræður“ eða „betlimunkar“. 1211 stofnaði hann reglu Klörusystra ásamt heilagri Klöru(Santa Chiara) frá Assisí sem var meðal fylgismanna hans. Hann boðaði frið, meinlætalíf og höfnun veraldlegra gæða. Það eru uppi margar kenningar um meint ástarsamband hans og Chiöru, allar yndislega rómantískar og sorglegar. Hversu margir munkar og nunnur hafi orðið ástfangin í gegnum aldirnar?
Assisi er allavega yndislegur bær, andrúmslofið er einmitt fullt af þessum umtalaða frið, fólkið opið og kurteist og það er fullt að skemmtilegu að skoða. Þar að segja ef þú hefur áhuga á því að skoða kirkjur. Dómkirkjan er full af málverkum eftir listamenn eins og Giotto og segir sögu heilags Francesco, og ekki eru hinar kirkjurnar síðri. Allt fullt að listaverkum, allt frá miðöldum fram að rómantískum stíl.
           Ég verð þó að viðurkenna að mér fannst ansi leiðilegt að geta ekki verið heima þann daginn, enda stór dagur hjá fjölskyldunni. Einu sinni litla Kristín mín, er orðin stór og fermdist þennan dag og elsku Ásta litla sem ég hef aldrei séð skírð og komin með nafn! Hugsaði ansi oft heim, og fannst ansi viðeigandi að eyða deginum í kirkjum!         27. apríl, síðasta frídaginn minn fór ég svo loksins til Pisa!
Um morguninn var veðrið hörmulegt, það rigndi og rigndi svo að það dugði ekkert annað en að taka fram stígvélin! Ég sem verð nú kannski seint þekkt fyrir bjartsýnina, ákvað nú samt að taka með mér ballerínurnar.. bara ef. Og eins og venjulega hafði ég rétt fyrir mér. Í Pisa var rúmlega 30° hiti og glampandi sólskin og ballerínurnar dregnar fram. Það dugði nú ekki til, því að auðvitað tókst mér einhvernveginn að skemma grey skóna! O jæja, mér fannst nú ekkert leiðilegt að kaupa nýja. TAKK MAMMA!
         Í rauninni er ekki það mikið að sjá í Pisa, þar sem að flestar kirkjurnar eru lokaðar þangað til í júni 2012(bara ef þið voruð að plana ferð). Ég kvartaði samt ekki, enda kirkju/safn-kvótinn búinn eftir ferðina til Assisi. Piazza dei Miracoli var samt skylduheimsókn, og ég varð ekki fyrir vonbrigðum með dómkirkjuna sem er frá miðöldum og gjörsamlega stórkostleg. Il battestero(ég kann ekki íslenskt orð yfir það) var ákaflega fallegt að utan, neðri hlutinn er í Romanesque stíl, á meðan efri hlutinn er gotneskur. Svo var Campo Santo líka mjög áhrifaríkur staður, í rauninni kirkjugarður með minnismerkjum. Þá eru grafhýsin(tomb?) skreytt afskaplega fallega, og flest voru þau í neoklassískum stíl, sem ég er einmitt svo hrifin af. Punkturinn yfir i-ið var samt sjálfur Skakki Turninn, þar sem að Galileó Galilei gerði hávísindalegar rannsóknir sínar á þyngaraflinu með því að láta hluti detta niður. Allt í þágu vísindanna auðvitað. Turninn byrjaði að skekkast 5 árum eftir að bygging hans hófst, en hún tók ekki nema 177 ár, og er lélegum grunni og jarðvegi kennt um. Skemmtileg staðreynd um Pisa er einmitt að einu sinni lá hún að sjó, en er búin að færast inn í land. Já, jarðvegurinn er búinn að færast.. og draga eina frægustu borg heimsins með sér!Nú er þetta orðin ansi mikil langloka, og ég hætti bara hér þó að ég hafi ýmislegt annað að segja frá. Mín bíður hins vegar sögupróf að læra fyrir.. og ég á ekki einu sinni bók!

Bestu kveðjur og knús,
Eyrún        

10 comments:

 1. I shall comment, ég las þetta Eyrún mín haha ;*

  - Ísfold

  ReplyDelete
 2. Hey Eyrún ég las þetta! Og þetta hljómar vel!
  Skátakveðja Marta Magnúsdóttir :p

  ReplyDelete
 3. Gott að lífið sé að fara vel með þig, elsku barn :-*

  Knús og rembingskoss,
  Inga

  ReplyDelete
 4. Gaman að heyra frá þér. Öfunda þig pínu :) Þú verður að versla á okkur líka!!

  kv. Drífa

  ReplyDelete
 5. Ohhh elska að lesa bloggin þín :D
  líka rosalega gott að lífið leiki svona vel um þig elsku besta
  Eyrún mín :*
  Elska þig <3

  ReplyDelete
 6. Guðríður HlífMay 3, 2011 at 10:26 PM

  Það er alltaf jafn gaman að lesa bloggin þín!
  Ótrúlega gaman að skoða myndirnar líka :)

  Gaman að segja frá því að í dag var rosa gott veður hérna og við Sólveig skelltum okkur í sund og fengum þetta líka fína sundbolafar! :D

  Hljómar ekki leiðinlega þetta frí þitt og allt hitt! Get svo sem alveg viðurkennt það að ég væri alveg til í að vera með þér þarna úti á Ítalíu núna...

  Ég vona að þú haldir áfram að njóta þín þarna úti :) Það er svo stutt í að þú komir heima að ég trúi því varla! Hlakka til!


  Kossar og knús til þín :*

  P.s. Þú kemur svo bara með ferðatöskuna með fötunum úr H&M sem þú ætlaðir að kaupa fyrir mig til mín þegar þú kemur heim - Vertu ekkert að senda þau, þessi ítalski póstur er ekki alveg að gera sig ;)

  ReplyDelete
 7. Mmmm hvað þetta hljómar allt vel, og ég sem er svo svöng og sé þig skrifa um lax og pasta, og ég girnist einnig hita og H&M! En annars eru þetta mjög flottar myndir hjá þér! :)
  Takk fyrir að loksins blogga, það er svo gaman að fá að fylgjast með :D
  Kúns, Sólveig

  P.s. Þín var sko sárt saknað í skírninni!! :*

  ReplyDelete
 8. Um leið og ég las orðin "Skakki Turninn" byrjaði ég að leita að klassísku sko-mig-ég-er-að-halda-turninum-uppi myndinni. Found it!

  ReplyDelete
 9. hahahah mer finnst þú svo fyndin
  fékk líka smá samviskubit yfir þessu með jesú að deyja, við erum alltaf bara djammandi og að fagna þessu meðan aðra eru hágrátandi haha
  er samt sma ful bara að þú sást skakka turninn en ekki ég
  hlakka til að vera endalaust með þér í elsku borgarnesinu i sumar :*
  Hanna Dôra

  ReplyDelete
 10. Alltaf gaman að lesa bloggin þín Eyrún.
  hahah! páskarnir á íslandi eru sko djamm! (:
  öööfund á H&M!!!! :/

  ;*
  Margrét:D

  ReplyDelete