Wednesday, February 23, 2011

Hún lifir!

Tæknin er ekki vinur minn, bæði hotmailið mitt og bloggsíðan ónýt. En lífið heldur áfram..
Það hefur nú gerst eitt og annað síðan ég bloggaði seinast. Ég er komin með nýja host-fjölskyldu í Forlí, en meira um það seinna. Ég var í tæpan mánuð hjá Clöru, Maurizio og Carlottu í Coccolia, einfaldlega yndislegt fólk sem ég get ekki þakkað nóg. Ítalskan tók stakkaskiptum með kennslu frá Clöru og ég hef aldrei á ævinni borðað svona góðan mat, alla daga.





Síðustu helgina í janúar fór ég með Clöru og Maurizio "upp í fjöllin" að hitta íslenska host-foreldra Carlottu sem voru þar í skíðaferðalagi. Við keyrðum í marga klukkutíma frá Ravenna, framhjá ánni Po, Verona og Garda-vatninu áður en við loksins komum á leiðarenda. Að sjá loksins almennileg fjöll aftur, get ekki líst því almennilega en það var ákveðin hvíld fyrir augun að hafa eitthvað í sjóndeildarhringnum annað en endalausa víðáttuna. Host-foreldrar Carlottu eru hið fínasta fólk, og mikið var nú gott að tala við og sjá aðra íslendinga, svo skemmdi nú ekki fyrir að þjóðarstoltið fékk smá búst við að sjá íslenska fánanum flaggað fyrir utan hótelið!
Eftir að við kvöddum íslendingana keyrðum við austur í átt að Feneyjum, stoppuðum yfir nóttina í litlum bæ fyrir utan, og vorum boðin í mat til vina Clöru og Maurizio þar sem hinir ýmsu sjávarréttir voru á boðstólnum, t.d. kolkrabbi með kolkrabbableks-sósu!
Daginn eftir fórum við svo á gullfallega vínekru þar sem var keypt vín fyrir meira en 1000 evrur(160.000 kr.). Ég ætla svo sannarlega þangað aftur, þetta var gamall herragarður sem er núna bæði safn og verslun fyrir vínið, og þar er boðið upp á allskonar uppákomur eins og hádegisverði og sýniferðir um vínekrurnar. Eftir það héldum við til Chioggia, sem er einskonar Mini-Feneyjar, ótrúlega falleg borg og mikið þótti mér rokið og sjólyktin góð! Fórum á frábæran veitingastað og týpískan fiskimarkað og ég tók fullt af myndum, því miður á myndavélinni hennar Clöru svo ég veit ekki hvort að þær munu nokkurn tímann líta dagsins ljós.


Þarna má einmitt sjá glitta í íslenska fánann!



6. febrúar fór ég svo í annað road-trip með Clöru, en í þetta sinn í suðurátt. Við keyrðum í gegnum elsku fallega Toscana, til Umbria sem er einmitt eina héraðið á Ítalíu sem ekki liggur að sjó, og þar býr Andrea, bróðir Clöru með fjölskyldu sinni.
Á leiðinni stoppuðum við í bæ sem heitir Anghiari, sem er nú kannski ekki merkilegur fyrir utan það leiti að hann er rosalega fallegur og þar er rosalega löng, bein og brött brekka sem Clöru langaði til að keyra niður.  Þannig að við skelltum okkur í könnunarleiðangur í sólskininu og hitanum um þennan sæta bæ og enduðum auðvitað á að keyra niður brekkuna, aðeins hraðar en löglegt er.
Bróðir Clöru býr í Citta di Castello (Borg Kastalans) og þangað fórum við í hádegismat. En og aftur, yndislegt fólk og yndislegur matur og ég skemmti mér konunglega með þríburunum á heimilinu. Já, bróðirinn á þríbura, tvo stráka og stelpu fædd 1992, og þau eru ekki glasabörn! Eftir hádegismatinn fórum við svo í skoðunarferð um borgina sem er guðdómleg, eins og öll Ítalía er reyndar. Skelltum okkur á nútímalistarsafn, skoðuðum 2, 3 eða 100 kirkjur hver annari fallegri og enduðum daginn auðvitað á ís!




Daginn eftir skipti ég svo um fjölskyldu, og þótt að ég hafi nú verið eins og blóm í eggi í sveitahöllinni hennar Clöru var nú gott að komast aftur inn í "siðmenninguna" í elsku Forlí þar sem ég þarf ekki að vakna fyrir allar aldir til að komast í skólann!
Nýja fjölskyldan mín samanstendur af mömmunni Carmen, pabbanum Davide, litla bróðurnum Giacomo sem er 12 ára og stóru systurinni Agnese sem er 26 ára og býr í íbúðinni fyrir ofan, svo er líka amman Mafalda. Carmen er kennari og er góð vinkona flestra kennaranna minna og Davide vinnur í banka. Þau búa mjög nálægt skólanum mínum, svo að nú hoppa ég út rétt fyrir átta.. svona eins og það á að vera.







Annars er vorið byrjað að sýna sig hér, sólskin, fuglasöngur og hiti flesta daga þótt að það komi nú reyndar leiðindarigning inn á milli, eins og síðasta sunnudag þegar ég, Anna, Daniella, Dhea, Francisco og Andrea skelltum okkur til Bologna. Ég held að Bologna sé orðin uppáhaldsborgin mín, aðalega vegna þess að H&M, Zara og Disney búðin eru hlið við hlið, yndisleg kirkja með guðdómlegu andrúmslofti, góð ísbúð og auðvitað turninn með 497 skrefunum!
Nú er ég enn og aftur komin með nýja stundartöflu í skólanum, og er núna í tímum með 5 bekkjum! Byrjuð að læra sögu listarinnar, sálfræði og heimspeki á ítölsku og hætt í þessu modellistica kjaftæði. Sé nú samt eftir enskutímunum sem ég þurfti að fórna, en tek landafræðitímunum mínum fagnandi. Það er náttúrulega skammarlegt að landafræði sé ekki kennd meira á Íslandi!








Ekki margir sem fara þetta tvisvar!

BFF's


Hápunktur dagsins

Elsku H&M


Eins og góður mánuður og febrúar er búin að vera hef ég á tilfinningunni að mars verði ennþá betri. 3. mars fer ég til Feneyja á hið fræga Carnevale með hinum AFS-krökkunum úr Emilia-Romagna, og svo er ég búin að kaupa mér flugmiða til Sikileyjar í 17.-23.mars, en ég ætla þangað í skiptivikunni og verð þá hjá fjölskyldu í borginni Gela í suður Sikiley í viku! Ekkert nema gleði og hamingja á þessum bæ, og ég trúi varla að dvölin mín hér sé meira en hálfnuð!

Bara týpískur McDonalds þriðjudagur



Nýja herbergið :)




Ást til ykkar
Eyrún